Anna Hrund MásdóttirFædd 1981 í Reykjavík - Býr og starfar í Los Angeles, USA

Stöðug leit Önnu Hrundar að földum fjársjóðum í hennar nánasta umhverfi einkennir list hennar að miklu leiti. Hversdagsleg fyrirbæri eins og vaxlitir, kökuskraut og límbandsrúllur öðlast nýtt líf í meðförum hennar og úr verða  oftar en ekki litskrúðug málverk, skúlptúrar og innsetningar. Verk hennar fá fólk til að sjá hlutina í kringum sig í nýju ljósi ekki síður en að vísa í listasöguna og eiga samtal við hana.Anna Hrund lauk B.S. gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands áður en hún útskrifaðist með B.A. gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2010. Í dag er hún í mastersnámi við hinn virta California Institute of the Arts í Los Angeles.Anna Hrund, sem er einn af meðlimum Kling og Bang gallerís í Reykjavík, hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér á Íslandi sem og víða erlendis auk þess að sinna kennslu og sýningarstjórn.

Daníel BjörnssonFæddur 1974 í Reykjavík - Býr og starfar í Reykjavík og á Seyðisfirði

Verk Daníels fjalla um það sem er handan raunheimsins en með raunverulegum þekkjanlegum hlutum. Umbreytingin frá raunheimi til veraldar verka minna er falinn í óvæntri samsetningu hluta eða breyttu sjónarhorni. Hlutir úr fortíðinni eru settir í samhengi við tíðaranda dagsins í dag. Viðfangsefnið er oft sagnfræði sem sett er á flot. Eins konar fljótandi söguskoðun.Spurningamerki sett við upprunaleika hluta. Um tengsl og samhengi sköpunarinnar við það sem þegar er tilbúið - oftast fundnir hlutir. Stólar sem segja jafn sanna sögu og viðurkenndar söguskoðanir sem við eða þetta samfélag okkar speglum okkur í. Þetta er ekki gert með gefna niðurstöðu í huga heldur með forvitni um hvað gæti gerst. Oft tímatengt lífrænt ferli. Stundum er engin niðurstaða eða endalok heldur eitthvað sem er á milli fingranna í smátíma. Stundum er þetta um viðsnúning hlutanna. Það sem er innbyrt verður útbyrt, það sem er útbyrt verður innbyrt.Daníel útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2002. Síðan þá hefur hann tekið í fjölda samsýninga og sýnt verk sín víðsvegar, austan hafs og vestan, meðal annars í Centre Pompidou í París, Berliner Liste í Berlín, Frieze Art Fair í Lundúnum, Dimensions Variable í Miami, Listasafni Reykjavík Hafnarhúsi, Skaftfelli á Seyðisfirði svo fátt eitt sé nefnt. Daníel hefur um árabil starfað sem stundakennari við Listaháskóla Íslands auk þess að vera einn af stofnendum Gallerís Kling & Bang og listamannamiðstöðvarinnar Klink og Bank.

Davíð Örn HalldórssonFæddur 1976 í Reykjavík - Býr og starfar í Reykjavík

Davíð Örn Halldórsson hefur mestmegnis unnið við málverk síðan hann útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2002. Hann hefur unnið með óhefðbundnar málunaraðferðir; málað og spreyjað með mismunandi iðnaðar málningu á fundna hluti. Fyrri verk Davíðs Arnar hafa oft samanstaðið af máluðum innsetningum, máluðum fundnum húsgögnum, gólfum, loftum og veggjum. Verk Davíðs Arnar byggjast yfirleitt á atburðum úr hversdagslífinu. Þau eru persónuleg úrvinnsla á umhverfi hans sem hann varpar fram í myndmáli sem vísar í barnalega tjáningu jafnt sem vestræna listasögu. 
Davíð Örn hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér á Íslandi og víða erlendis. Listasafn Íslands, Listasafn Háskóla íslands auk einkasafnara eiga verk eftir hann. Davíð fékk Dungal styrkinn árið 2008 og árið 2013 hlaut hann hin virta Carnegie Art Award styrk í flokki ungra listamanna.

Guðmundur ThoroddsenFæddur 1980 í Reykjavík - Býr og starfar í Reykjavík

Á undanförnum árum hefur Guðmundur verið að skoða karlmennsku og stöðu feðraveldisins, þar sem hann gagnrýnir og hæðist að því á sama tíma og hann upphefur það. Húmorísk og sjálfrýnin verkin eru unnin í fjölbreytta en hefðbundna miðla, s.s. leir, vatnslit, teikningu og málverk. Myndefnið eru gjarnan skeggjaðir karlar sem uppteknir eru við ýmsa iðju á borð við körfuknattleik, bjórbruggun og skotveiðar. Auk þessa má sjá marga þeirra kasta vatni eða leysa vind vítt og breitt um myndflötinn. Leirskúlptúrar Guðmundar eru gjarnan í líki bikara eða verðlaunagripa sem karlmönnum er eiginlegt að umkringja sig með til sönnunar á eigin ágæti. Guðmundur Thoroddsen lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2003. Hann útskrifaðist með með MFA gráðu í myndlist frá School of Visual Arts í New York árið 2011. Hann hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningar bæði hér á landi sem og erlendis.

Pétur ThomsenFædd 1973 í Reykjavík - Býr og starfar á Sólheimum í Grímsnesi

Pétur Thomsen hefur á undanförnum árum vakið athygli, bæði á Íslandi og erlendis, fyrir ljósmyndaverk sín sem fjalla um samband mannsins og náttúrunnar. Tilraunir mannsins til að stjórna náttúrunni og móta hana. Hvernig maðurinn breytir náttúru í umhverfi.  Pétur Thomsen útskrifaðist árið 2004 með MFA gráðu frá École Nationale Supérieur de la Photographie í Arles í Suður Frakklandi. Þar áður lauk hann BS gráðu í ljósmyndun frá Ecole Supérieure des Métiers Artistiques í Montpellier. Pétur lærði einnig listasögu og fornleifafræði í Université Paul Valéry í Montpellier í Frakklandi. Pétur Thomsen hefur hlotið alþjóðleg verðlaun og haldið fjölda einkasýninga svo sem í Listasafni Íslands, Ljósmyndasafni Íslands,  PhotoforumPasquArt í Sviss, Les Rencontres d‘Arles í Frakklandi, Camera Oscura í Madrid og Gallery Mustafa Ali í Damaskus Sýrlandi. Pétur hefur einnig tekið þátt í fjölda samsýninga bæði á Íslandi og erlendis.

Ragnar KjartanssonFæddur 1976 í Reykjavík - Býr og starfar í Reykjavík

Ragnar er útskrifaður frá Húsmæðraskólanum, Listaháskóla Íslands og var skiptinemi í Sænsku Konunglegu Listaakademíunni. Ragnar hefur haldið fjölmargar einkasýningar svo sem í Kling og Bang, Nýlo, i8 gallerí í Reykjavík, Migros Museum für Gegenwartskunst í Sviss, New Museum, N.Y., MoMA PS1, ICA Boston og Carnegie Museum of Art í Bandaríkjunum. Einnig hefur hann tekið þátt í ýmsum samsýningum bæði hérlendis og erlendis. Ragnar var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2009 og tók þátt í alþjóðlegu sýningu tvíæringsins 2013.

Sara RielFædd 1980 í Reykjavík - Býr og starfar í Reykjavík

Sara Riel lauk námi frá Kunsthochschule BerlinWeissensee 2005 með mastersgráður frá myndhöggvaradeild. Auk þessa lauk hún Meisterschulerári 2006 frá sömu stofnun. Listamaðurinn vinnur í mismunandi efni og miðla og eru verkin frásöguleg og smáatriðamiðuð. Hún er þekkt fyrir viðamikið myndrænt tungumál og persónulegan stíl sem vísar í samfélagsleg málefni og umhverfisupplifun. Listasaga, graffítí og grafísk hönnun eru mikilvægir tilvísunarþættir. Sara Riel hefur sýnt í helstum söfnum og galleríum íslands sem og víðsvegar á erlendri grundu. Hún er þekktust fyrir áþekkjanleg stór veggverk víðsvegar um Reykjavíkurborg en auk þess er hægt að finna verk eftir hana á götum stórborga á borð við Berlin og Tokyo.

Þór SigþórssonFæddur 1977 í Reykjavík - Býr og starfar í Reykjavík

Uppistaðan í verkum Þórs eru hlutir fundnir í hversdagsleikanum sem listamaðurinn hefur tekið í sundur og svipt upprunalegu hlutverki aðeins til þess að setja saman aftur í nýju samhengi. Þannig öðlast derhúfur, stálrör, steypa og flatskjáir nýtt hlutverk í verkum Þórs.Þór lauk BA prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2002 og stundaði síðar nám við Academy Der Bilderenden Kunste í Vín. Árið 2008 útskrifaðist hann svo með MFA gráðu í myndlist frá School of Visual Arts í New York. Þór hefur tekið þátt í fjölda sýninga hér á landi sem og erlendis.