Úrval myndverka á pappír eftir Kristján Davíðsson sem getur að líta hér í húsakynnum GAMMA, er hluti af umfangsmiklu safni listaverka sem Gísli Hauksson hefur komið sér upp á undanförnum árum. Um leið er það eitt markverðasta samsafn verka eftir Kristján í eigu einkaaðila. Í hnotskurn birtist okkur innsýn í hugarheim listamannsins, framvinduna í myndlist hans á rúmlega sjötíu ára tímabili og viðhorf vandláts safnara til viðfangs síns.

Hér er safn Gísla flokkað undir allsherjarheitið „myndverk“ fremur en „skissur“, „teikningar“ eða „formyndir“, því öll eiga þessi hugtök jafn vel – eða illa, við þessi verk. Þá ber einnig að hafa það í huga að listamaðurinn sjálfur setti þessi verk undir sama hatt, listrænt séð og öll önnur verk sem hann gerði. Að sönnu hafði hann lífsviðurværi sitt mestmegnis af stórum olíumálverkum sínum, enda er listaverkamarkaðurinn á Íslandi mestmegnis sniðinn að slíkum verkum. En það sem gerðist í pappírsmyndunum var Kristjáni jafn mikils virði og þau miklu átök sem hann sviðsetti í olíumálverkunum. Vissulega kallast pappírsmyndirnar og olíumyndirnar á með ýmsum hætti, sjáum t.d. fingurmálverkin sem hann gerði undir það síðasta á pappír og striga. En pappírsmyndirnar eru ekki undirbúningur stærri verkanna í venjulegum skilningi – og þetta er einkenni á myndlist Kristjáns alla tíð. Þær eru sjálfstæður myndrænn skáldskapur í smærra formi, eins konar sonnettur, meðan stóru verkin eru hetjuljóð. Sem áhorfendur horfum við til olíuverkanna, en inn í pappírsmyndirnar. Á því er heilmikill munur.

Pappírsverkin nauðsynleg

Því stóðu pappírsmyndirnar Kristjáni ævinlega nærri en olíumyndirnar. Þær höfðu einkalegt gildi, voru mestmegnis prívatmál hans sjálfs, kannskihömlulaus útrás tilfinninga eða lausnir á sköpunartregðu og öðrum myndrænum vanda sem ekki hentar öllum að flíka. Olíumyndirnar seldi hann hæstbjóðendum, pappírsmynd-irnar geymdi hann árum eða áratugum saman í skúffum og skrínum og deildi þeim út við sérstök tækifæri til þeirra sem hann hafði velþóknun á. Aðnjótendur þessara pappírsmynda urðu honum nákomnari, í bókstaflegum skilningi.

Umfram allt eru pappírsmyndirnar gerðar af brýnni þörf. Kristjáni leið beinlínis illa ef hann fékk ekki útrás fyrir sköpunargleðina upp á hvern dag. Og þá var fljótlegast að grípa næstu pappírsörk og hefjast handa, í stað þess að fara í vinnusloppinn, festa striga á trönur og blanda liti. Síðari árin var algengt að rekast á listamanninn djúpt sokkinn í hægindastól sinn, með vatnsliti, blek-byttur og annað tilbehör á stólbríkinni – að ógleymdum vindilstubbum og skæða-drífu af teikningum út um öll gólf. Afraksturinn af þessu hugarflæði var geymdur í einhvern tíma, síðan var vinsað úr og mislukkuðum örkum sópað út í tunnu, annað var sett á ís út frá kerfi sem enginn botnaði í nema listamaðurinn sjálfur.

Stundum kallaði brýn þörf á óhefðbundna miðla og aðferðir. Vandfýsi Kristjáns var við brugðið; yfirleitt sankaði hann að sér besta pappír sem völ var á, allt frá hnausþykkum frönskum eða ítölskum vatnslitapappír upp í næfurþunnan ríspappír frá Japan. Sömuleiðis voru blekið, túskið og vatnslitirnir sem hann notaði ævinlega valdir af kostgæfni. En það eru líka til eftir hann rissmyndir á rúðustrikuðum pappír úr venjulegum stílabókum, tilraunamyndir á grófum umbúðapappír (sem Kjarval fannst líka gott að grípa til), verk gerð á forgengilegan dagblaðapappír, teikningar á notuðum pappírsumslögum eða rifrildum utan af pappakössum.

Þá helgaði tilgangurinn einnig meðalið þegar kom að áhöldum. Kristján gat vissulega brugðið fyrir sig Mont Blanc pennum sínum, en einnig blýöntum af öllum stærðum og gerðum, kúlupennum, breiðum og mjóum túskpennum, fín-gerðum penslum, grafítstubbum og undir það síðasta fingrunum, tuskubútum og pensilskafti, sem hann notaði til að dreifa litum um pappírinn. Síðan kom fyrir að hann bar olíuliti (og bílalakk) á pappír, vegna þess að hann kunni vel við það hvernig olían smitaði út frá sér á pappírnum, myndaði tæra bauga utan um litina. Sýnishorn nánast allra þessara aðferða er að finna í safni Gísla Haukssonar.

Lifandi lína 

Beiting sjálfrar línunnar í þessum pappírsverkum er síðan kapítuli út af fyrir sig. Elstu verkin í safninu sýna hefðbundna nálgun; teikningin er notuð til að marka fyrir útlínum fyrirbæra og staðsetningu þeirra á pappírnum. Í verkum sem gerð eru um og eftir síðara stríð er línunni beitt oftar til tjáningar en afmörkunar/lýsingar fyrirbæra, hún verður þjálli, sjálfstæðari – beinlínis óútreiknanlegri. Í einstöku safni slettumynda frá 1956-57 í eigu Gísla sjáum við upphaf róttækra umbreytinga í myndlist Kristjáns. Þar einsetur listamaðurinn sér að losna úr viðjum vanahugsunar með því að leyfa sjálfu efninu, í þessu tilfelli bílalakki, að drjúpa stjórnlaust á pappírinn. Þannig töldu menn að mögulegt væri að tengja fram hjá vitundinni og opna fyrir tjáningu á ósjálfráðri hrynjandi líkamans, sjálfri lífsorkunni. Þótt Kristján hafi í framhaldinu ekki gengist stjórnleysinu alfarið á hönd, liðkuðu þessar tilraunir fyrir hugmyndaflæðinu í myndlist hans til frambúðar. Hin síðari ár tók línan á sig æ fjölbreyttari myndir í verkum listamannsins, eins og gjörla sést á verkunum í safni Gísla.

Myndefnið í pappírsverkum Kristjáns er aðallega tvenns konar. Annars vegar eru tilbrigði um smáheima náttúrunnar, hins vegar tilbrigði um manns-andlitið. Og iðulega skarast þetta tvennt, ekki ósvipað og í teikningum Kjarvals; náttúran birtist í andlitunum og öfugt. Kjarval er ekki nefndur hér af tilviljun, því engir tveir listamenn hafa meðhöndlað mannsandlitið af eins mikilli innlifun, sköpunargleði og kímni eins og þeir Kristján. Báðir teikna með léttum, taktföstum og kvikum hætti, virkja myndflötinn jafnt og drættina. En meðan andlitsmyndir Kjarvals eru oft og tíðum hluti af óræðum táknheimi hans sjálfs, er umfjöllun Kristjáns um mannsandlitið samfelldur óður til mann-legrar sérvisku og fjölbreytileika.

Aðalsteinn Ingólfsson