Myndlistarferill Kristjáns Davíðssonar var bæði langur og ævintýralegur. Kornungur drengur horfði hann á Guðmund Thorsteinsson, Mugg, mála mynd á heimaslóðum hans, Patreksfirði. 95 ára gamall stóð hann sjálfur við trönurnar á vinnustofu sinni og málaði tilbrigði um hrynjandi náttúrunnar með penslum, fingrum og tuskubútum. Þá var Kristján elstur starfandi listmálara á landinu og er ekki vitað að annar íslenskur myndlistarmaður hafi verið jafn lengi að.

 Kristján var elstur þriggja systkina og þegar faðir hans lést langt um aldur fram árið 1934, þurfti hann að fara til sjós til að sjá fjölskyldu sinni farborða. Þá hafði hann þegar fengið nasasjón af myndlist af bókum og notaði tímann í einni Reykjavíkurferð sinni til að sækja teikninámskeið hjá Finni Jónssyni. Árið 1935 hafði Kristjáni tekist að nurla saman nægjanlegum peningum til að halda áfram myndlistarnámi hjá þeim Finni og Jóhanni Briem árið 1935-36. Þá hafði hann einnig fengið útrás fyrir tónlistaráhuga sinn, m.a. með sjálfsnámi á fiðlu. Kristján var alla tíð mjög áhugasamur um klassíska tónlist og taldi að bein tengsl væru milli hennar og myndlistarinnar sem hann var þekktastur fyrir.

Seint á fjórða áratugnum var Kristján að mestu staðsettur í Reykjavík og um tíma búsettur í því fræga Unuhúsi, ásamt sveitunga sínum, Jóni skáldi úr Vör. Þess á milli þurfti hann að stunda róðra fyrir vestan til að afla sér tekna. Tvítugur varð Kristján því nákunnugur helstu kanónum þess menningarsamfélags sem þreifst í litla rauða húsinu við Garðastræti, undir vökulum augum Erlends Guðmundssonar og Unu, móður hans. Meðal gesta og kostgangara þar um þetta leyti voru Halldór Laxness, Þórbergur Þórðarson, Steinn Steinarr, Elías Mar og fleiri. Síðar meir málaði Kristján myndir af þeim öllum, að Erlendi meðtöldum. Upplýsingar um nýjustu strauma í myndlist fékk Kristján hins vegar hjá þeim Þorvaldi Skúlasyni og Nínu Tryggvadóttur, sem bæði höfðu flýtt sér heim þegar Þjóðverjar hertóku Frakkland

Stríðsárin og Barnes Foundation

Stríðsárin voru Kristjáni mikilsvert mótunarskeið og myndlist hans einkennist af ýmiss konar tilraunum, aðallega með ýmis afbrigði af kúbisma Picassos. Um leið kynnti hann sér það helsta sem völ var á um sögu, heimspeki og fagurfræði myndlistar, en bækur um það efni fóru að berast til landsins í kjölfar hernáms Breta og Bandaríkjamanna. Meðal þess sem Kristján las voru kenningar John Dewey, helsta postula bandarískrar gagnhyggju (pragmatisma), sem talaði m.a. fyrir listnámi þar sem kenn-ari og nemendur væru samstiga og myndlist ætti að skoða í eðlilegu samhengi við aðrar sjónlistir. Í framhaldinu bárust honum fréttir af því að einn helsti aðdáandi Deweys, vellauðugur myndlistarsafnari, Albert C. Barnes að nafni, ræki stofnun og skóla í Pennsylvaníu, þar sem nemendur fengju að nema heimspeki Deweys og annarra innan um listaverkaeign hans. Þegar Kristjáni barst í ofanálag til eyrna að heimspekingurinn, Bertrand Russell, væri meðal kennara við stofnunina, Barnes Foundation, þá gerði hann ráðstafanir til að fá þar inngöngu. Það tókst í stríðslok og var Kristján þar við nám í eitt ár og bætti svo við sig námskeiðum í Pennsylvaníuháskóla. Heim til Íslands sneri hann aftur 1947.

Barnes reyndist Kristjáni vel, keypti verk eftir hann og greiddi götu hans með ýmsum hætti. Dvölin í Bandaríkjunum var listamanninum lærdómsrík að ýmsu öðru leyti, því um helgar gerði hann sér ferðir til New York þar sem gat að líta nýjustu verk ungra bandarískra myndlistarmanna ásamt verkum eftir stórmeistara frá Evrópu. Það var einmitt í New York sem Kristján hreifst fyrst af gróft máluðum og áferðarmiklum myndum eftir lítt þekktan franskan listamann, Dubuffet að nafni.

Á árunum 1945-51 tók Kristján þátt í Septembersýningum ungra íslenskra myndlistarmanna og voru myndir hans eins konar sambræðingur af síðkúbisma, súrrealisma og beinskeyttum stíl frumþjóða. Árið 1949 urðu síðan önnur tímamót á ferli Kristjáns er hann ákvað að dvelja nokkra mánuði í París og London. Í París hitti hann fyrir Michel Tapié, einn helsta talsmann hrálistar, art brut, hverrar helsti iðkandi var einmitt áðurnefndur Dubuffet. Tapié var fylgjandi nýrri tilfinninga- og táknhyggju í myndlist, sömuleiðis eins konar skapandi óreiðu sem hann nefndi formleysu. Með þeim Kristjáni tókst góð vinátta; Tapié keypti af honum verk, sýndi honum einkasafn sitt og skrifaðist síðar á við hann.

Aðalsteinn Ingólfsson