Heimspekilegt jarðsprengjubelti

Kristján Guðmundsson byrjaði að sýna á sjöunda áratug síðustu aldar og fann fljótt sína eigin nálgun þar sem hann bræddi saman framúrstefnuhugmyndir þess tíma við hina nýju hugmyndalist og við sínar eigin hugmyndir um knappa, nauma framsetningu.

Strax upp úr 1970 bjó Kristján til verk sem virtust við fyrstu sýn vera fullkomlega mínimalísk, jafnvel abstrakt, en reyndust við nánari athugun hlaðin merkingu, tilvísunum og tengingum sem hann lét áhorfandanum eftir að uppgötva og kanna nánar. Eitt þessara verka var þríhyrningur í ferningi (1971–1972), ferningur af mold á gólfi sýningarsalarins, 4 × 4 metrar að stærð. Þetta virtist nokkuð blátt áfram – og jafnvel dæmigert fyrir mínimalisma þess tíma – en Kristján flækti málin með því að segja okkur að innan í ferningnum af venjulegri mold væri þríhyrningur af vígðri mold sem þá hlyti að hafa verið tekinn úr kirkjugarði. Einföld framsetning verksins og mínimalískt yfirbragð gufar allt í einu upp og í staðinn fyllist hugurinn af vangaveltum um eðli trúarbragða og helgiathafna, andlegt horf hins efnislega veruleika og eðli listarinnar.

Þessi ferningur af mold reynist vera heimspekilegt jarðsprengjubelti. Bókverk hans frá sama tíma eru til vitnis um þessa hugsun, til dæmis verkið Punktar (1972) sem sýnir punkta úr ljóðasafni Halldórs Laxness, stækkaða margfalt svo aðeins einn punktur er prentaður á síðu. Á síðunni sýnast þetta bara vera nokkurn veginn hringlaga blekklessur en ef við lítum á þær sem útdrátt úr ljóðum Nóbelskáldsins hafa þær mikið víðari tilvísun, fela í sér meiri merkingu og krefjast þess að við skoðum þær með ákveðinni lotningu.

Einföld framsetning verksins og mínimalískt yfirbragð gufar allt í einu upp og í staðinn fyllist hugurinn af vangaveltum um eðli trúarbragða og helgiathafna, andlegt horf hins efnislega veruleika og eðli listarinnar.

Teikningin varð fljótlega helsta verkfæri Kristjáns og hann kannaði ótal möguleika við útfærsluna. Hann bjó til verk þar sem hann dró línur með blekpenna á þerripappír og skráði þannig bæði tímann sem það tók að draga línuna og lengd línunnar á blaðinu: Strikið verður feitara ef hægt er dregið, grennra ef penninn er dreginn hratt. Á níunda áratugnum urðu umskipti í list Kristjáns þegar hann fór að láta efnið koma í stað teikningarinnar sjálfrar – í staðinn fyrir að teikna notaði hann grafít (eins og notað er í blýanta), pappír og blek sem efni í eins konar skúlptúra. Þannig er Teikning 6 (1987–1990) samsett úr fjórum, stórum rúllum af prentpappír sem stillt var upp á endann og stórum stykkjum af grafíti ofan á rúllunum. Í Teikningu 7 (1990) er löngum og grönnum stykkjum af grafíti raðað lárétt á vegg, fimm hverju upp af öðru, fjórum grúppum í röð á veggnum. Verk frá 1998 sem heitir einfaldlega Teikning samanstendur af átta stykkjum af grafíti sem mynda horn utan um tómt, ferhyrnt rými á vegg. Hér er það efnið sjálft sem geymir tilvísanir og tengingar meðan framsetning verksins er eins naum, abstrakt og mínimalísk og verið getur. Þessi verk sýna sömu viðleitnina til að pakka eins mörgum tengingum og eins mikilli merkingu og mögulegt er í eins naumt form og auðið er. Kristján hefur sjálfur sagt um þetta að verkin verði „hlaðin“ – eins og byssa.“

Líkt og margir listamenn af hans kynslóð hefur Kristján unnið í ýmsa miðla og oft endurnýtt iðnaðarvöru til að nota í verk sín. Hann hefur notað tvöfalt gler, rafmagnskapla, plaststafi sem notaðir voru til að merkja skrifstofur og jafnvel hallamál sem hann notaði í veggmyndir. Venjulega mundum við skilja þetta þannig að hann væri að setja hluta fyrir heild, líkt og þegar grafítið stendur fyrir teikningu, en samleikur efnisins verður oft ansi flókinn. Þannig var það með verkin sem unnu honum hin virtu Carnegie-listaverðlaun árið 2010. Þar sýndi hann „hljóðdempandi málverk“, strekkta striga sem voru málaðir ýmist svartir eða hvítir, með stálgrindum fyrir með götum sem hægt var að greina málaðan strigann í gegnum. Þessi samsetning af malerískri nálgun og fjöldaframleiddum, enameleruðum stálplötum vekur spurningar um tilgang málverksins og myndlistarinnar allrar. Þessar spurningar verða enn áleitnari vegna þess að við fyrstu sýn er erfitt að greina verkin að frá svipuðum fjöldaframleiddum plötum sem notaðar eru við húsagerð og við umgöngumst flest á hverjum degi.

þessi verk sýna sömu viðleitnina til að pakka eins mörgum tengingum og eins mikilli merkingu og mögulegt er í eins naumt form og auðið er. Kristján hefur sjálfur sagt um þetta að verkin verði „hlaðin“ – eins og byssa.

Tóm en hlaðin

Túristaljóðin frá 1996 sýna bakhlið póstkorta sem prentuð voru fyrir ferðamenn á Íslandi. Framhlið slíkra korta sýnir yfirleitt fallega litmynd sem grípur augað en bakhliðarnar eru yfirleitt nokkuð svipaðar, eftir hefð sem rekja má meira en öld aftur í tímann. Það eru línur þar sem skrifa skal nafn viðtakandans og heimilsfang, ferhyrningur til að gefa til kynna hvar skuli líma niður frímerkið, og nokkur orð um ljósmyndina á framhliðinni. Kristján setur þetta fram sem fundnar teikningar og einfaldlega endurgerir þær á vegg, talsvert stærri en frummyndirnar. Sum snúa lóðrétt, sum lárétt, allt eftir því hvernig ljósmyndin snýr. Þessi listaverk stemma fullkomlega við það sem Kristján hefur sjálfur sagt, að hann vilji að myndlist sín sé „tóm en hlaðin“. Þessi verk eru vissulega tóm – óútfyllt eyðublöð, loforð um samskipti sem aldrei varð af. Samt eru þau hlaðin tengingum og hugrenningum: Við getum séð hvaðan mynd á framhliðinni muni hafa verið tekin og gert okkur í hugarlund hvernig hún gæti litið út (kannski höfum við sjálf komið þarna eða langar að skoða staðinn) og póstkort vekja alltaf minningar og tilfinningar – um ferðalög og frí, um kort sem maður hefur sjálfur fengið frá vinum, um fjarlæg lönd eða – nú síðustu ár – um gamla daga áður en farsímarnir og tölvupósturinn komu til. Kristján hefur búið til nýja röð Túristaljóða fyrir þessa sýningu og eru þau máluð beint á veggi salarins. Með verkunum fylgir skjal frá listamanninum sem heimilar kaupanda að endurgera verkið annars staðar.

Tilvísanakeðjan vindur upp á sig

Hin myndaröðin ber heitið Ólympískar teikningar (2012 og 2014).Þar markar Kristján af rými á veggnum með láréttum grafítstykkjum líkt og hann gerði í Teikningu 7 frá 1990. Í því verki stendur grafítið eitt en hér bætir Kristján við áhöldum sem geta fyllt rýmið. Teikningarnar vísa allar í ólympískar íþróttagreinar og áhöldin gefa til kynna hver íþróttin er og hvort konur eða karlar keppa: Spjót fyrir spjótkast kvenna, viðbragðsstoð fyrir 100 metra hlaup karla, grind fyrir grindahlaup kvenna. Áhöldin eru öll vottuð af IAAF (Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu) svo öruggt er að þau mæta ströngustu ólympísku kröfum.

Myndlist getur ekki, frekar en heimspeki, gert tæmandi grein fyrir líkingunum og tilvísununum sem við greiðum úr og leikum okkur með til að gæða reynslu okkar merkingu en með Ólympísku teikningunum hefur Kristján komist nær en flestir aðrir.

Ólympísku teikningarnar marka nýtt skref í nálgun Kristjáns. Þær kallast á við ýmis eldri verk hans en opna um leið nýja vídd. Hann hefur lengi notað fundna, fjöldaframleidda hluti og áður notað grafít til að standa fyrir teikningu. Fram að þessu hafa slík verk þó verið abstrakt en nú lætur Kristján okkur fá skýra fyrirmynd og myndræna tilvísun í ytri veruleika: spjótið, grindina, o.s.frv.

Á vissan hátt er okkur ætlað að skilja þessa hluti svo að þeir standi fyrir teikninguna í rýminu sem grafítið markar á veggnum. En við verðum líka að skilja þá sem tákn fyrir íþróttirnar og þannig vindur tilvísanakeðjan upp á sig. fiessi verk eru skyld hinu fræga konseptverki Joseph Kosuth, Einn og þrír stólar (1965), en skilaboðin eru mun fínlegri og rista dýpra. Verk Kristjáns sýna hvernig við skiljum flóknar tengingar hluta og hve auðveldlega við tengjum mismunandi abstrakt hugsanir og margfaldar tilvísanir. Myndlist getur ekki, frekar en heimspeki, gert tæmandi grein fyrir líkingunum og tilvísununum sem við greiðum úr og leikum okkur með til að gæða reynslu okkar merkingu en með Ólympísku teikningunum hefur Kristján komist nær en flestir aðrir. Það sem er svo stórkostlegast er hvernig honum tekst þetta í svo knappri og einfaldri framsetningu. Þetta eru verk sem eru næstum tóm en vissulega hlaðin.


Jón Proppé