13.október til 22.desember | OCTOBER 13th to DECEMBER 22nd

Þór Vigfússon: Í litum

Í Gallery GAMMA verður opnuð sýning á verkum Þórs Vigfússonar, föstudaginn 13. október kl. 17.00 og eru allir velkomnir.

Þór Vigfússon hefur á sinn hljóðláta hátt haldið á lofti merki minimalismans síðustu áratugi þótt hann hafi líka stundum unnið út frá öðrum nálgunum og aðferðum. Hann er að sjálfsögðu ekki einn á þessu ferðalagi heldur hefur hin nauma hugsun – minimalisminn – verið ein af meginstoðum íslenskrar myndlistar marga síðustu áratugi. Hér hefur þessi myndhugsun þó fengið annan blæ en með stórþjóðunum og blandast við hugmyndalist, jafnvel málverk og allt litast af ljóðrænunni sem Íslendingum virðist vera í blóð borin hvort sem þeir fást við myndir, texta, handverk eða tónsmíðar.

Elsta verkið á sýningunni er litastúdía frá 1979 þar sem Þór er einmitt að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að finna hugsun og merkingu – jafnvel ljóð – í frumlitum og -formum. Í yngri verkunum sjáum við svo hvernig hann hefur pælt þennan svörð áfram og fært okkur sífellt einfaldari en dýpri verk sem við getum speglað okkur við, hikað við og hugsað um.

Sýningarstjórar eru Jón Proppé (823 3604) og Ari Alexander Ergis Magnússon (895 8082) og má leita frekari upplýsinga hjá þeim.